Sá ánægjulegi viðburður átti sér stað sunnudaginn 17. janúar sl. að Hafliði Kristinsson kynnti á samkomu í Fíladelfíu í Reykjavík opnun á heimasíðu þar sem nálgast má alla Hörpustrengi í fyrsta sinn á internetinu. Eins og fram kemur á heimasíðu Fíladelfíu þá segir Hafliði Kristinsson frá því að Hvítasunnukirkjan á Íslandi hefur gefið út sálma til almenns söngs í 100 ár. Eftir að hafa haft verkefnið á teikniborðinu í rúm 30 ár er nú komið að langþráðri endurútgáfu á Hörpustrengjum. Að sögn Hafliða var þessi heildar endurskoðun á sálmabókinni sett af stað undir leiðsögn Árna Arinbjarnarsonar þáverandi tónlistarstjóra Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík. Henni lauk með veglegu framlagi Óskars Einarssonar, tónlistarstjóra Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu síðustu 29 árin. Hann setti upp nótna- og hljómasíður sálmanna sem nú birtast. Ásamt þeim tveimur hafa þeir Guðni Einarsson og Hafliði Kristinsson verið hluti af hópnum sem valdi sálmana, vann að undirbúningi texta og öflun upplýsinga um höfunda og þýðendur. Í upphaflega hópnum, sem valdi sálmana er birtast í nýju útgáfunni, var einnig Hjálmar Guðnason frá Vestmannaeyjum. Mikið af textanum var tölvusett af Haraldi Halldórssyni, Guðrún Markúsdóttir las prófarkir og Aron Hinriksson hannaði viðmótið á heimasíðu kirkjunnar. Auk þessara hafa fleiri komið að þessu verki í lengri eða skemmri tíma og er þeim þakkað af heilum hug þeirra ómetanlega framlag. Við biðjum þess að Hörpustrengir megi nú sem fyrr veita ómælda gleði þeim sem lært hafa að nota þennan fjársjóð sjáfum sér og öðrum til uppörvunar, huggunar, gleði og hvatningar. Það er von okkar að þessir sálmar megi halda áfram að leiða okkur fram fyrir Guð í tilbeiðslu og lofgjörð ásamt annarri tónlist og textum sem á síðari árum hafa auðgað kirkjuna með fjölbreytni í tækifærum til að breiða út fagnaðarerindið. Smelltu hér til að fara inn á Hörpustrengjasíðuna
top of page
bottom of page
Kommentare