Aðfangadagur - Helgistund

24. desember 2020

Þá er kominn aðfangadagur jóla og vonandi allir tilbúnir að hægja vel á og huga að því sem mestu máli skiptir. Lífið sjálft og ,,Ljós heimsins"

Vegna mjög svo óvenjulegra aðstæðna, sem við þekkjum orðið öll, getum við því miður ekki komið saman í krikjunni okkar á aðfangadag eins og við erum vön. Vonandi verður það aðeins í þetta sinn. Við erum þakklát fyrir þá möguleika sem við höfum á samfélagsmiðlum. Þar höfum við getað komið saman og átt notalegar stundir. Bæði með því að lesa, hlusta og horfa.

Að þessu sinni höfum við sent út helgistund, þar sem Jóhanna Sólrún Norðfjörð, prestur kirkjunnar, flytur hugleiðingu og þær Anna Júlíana Þórólfsdóttir og Alda María Norðfjörð syngja.

Hægt er að sækja útsendinguna hér: https://youtu.be/moac9i_iETo


Hugleiðing um ást Guðs til okkar.

Mig langar að við sjáum kærlæka Guðs í daglegu lífi. Á jólum og allt árið um kring.

,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf". Jóh. 3:16

Aðstæður okkar eru heldur öðruvísi en við eigum að venjast. Á aðfangadag erum við vön að koma saman í kirkjunni okkar og hefja jólahátíðina. Nú er allt breytt og það hefur ekki farið fram hjá neinum hér á landi og sennilega hvergi hér á jörðu. Öll höfum við þurft á einhvern hátt að haga lífi okkar með öðrum hætti á þessu ári en við erum vön að gera. Við erum sennilega all flest farin að venjast því að koma saman á internetinu. Hittast hér á skjánum. Við höfum verið fljót að að laga okkur að breyttum aðstæðum. En það er einn sem ekki hefur breyst. Það er Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur. Sá sem kom í heiminn til að frelsa okkur.

Mig langar að tala um kærleika Guðs til okkar mannanna. Þvílík ást sem Guð faðir okkar á himnum sýnir okkur. Kærleikur sem nær út yfir allt sem hugur okkar nær til.
Það er vel við hæfi á aðfangadegi jóla að minnast þess að Jesús kom í þennan heim vegna föðurelsku Guðs. Vegna elsku Guðs til okkar. Mig langar til þess að við munum eftir því að við höldum jólin hátíðleg vegna þess að Jesús kom sem ungbarn í þennan heim, ekki til að dæma heiminn, heldur til að frelsa.  Frelsa okkur til eilífs lífs.

Það er kærleikur Guðs sem mig langar að við verðum vör við, í dag sem og alla aðra daga í lífi okkar. Það að elska og að vera elskuð.

Hvert og eitt okkar erum við einstök. Við erum að sumu leiti lík, en einnig ólík að mörgu leiti. Við höfum ólík sjónarmið, höfum ólík áhugamál og svo mætti lengi telja. Suma í kring um okkur þekkjum við vel. Aðra þekkjum við minna og enn aðra þekkjum við ekki neitt.

Þegar Jesú hafði vaxið úr grasi vissi hann hvað beið hans og elska hans til okkar var nóg fyrir hann til þess að gefast ekki upp. Hann var heils hugar í því sem honum var falið og hann fór alla leið á krossinn fyrir okkur. Jesús hafði ekki alltaf mikinn stuðning lærisveina sinna, en hann gafst ekki upp á þeim. Alveg sama hvernig þeir brugðust honum,þá brást hann þeim ekki. Hann elskaði þá og vildi aðeins það besta fyrir þá. Þannig er það einnig með okkur í dag. Hann elskar okkur og vill aðeins það besta fyrir okkur. Hann lifir í dag. Hann tekur eftir okkur í hverjum þeim aðstæðum sem við erum í.

Hann heyrir í þér, finnur til með þér í þrengingum, fagnar með þér þegar þú gleðst, líður með þér þegar þér líður illa, hann vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert, hugsanlega kominn í ógöngur. Já! jafnvel á algjöran endapunkt. En af hverju?

Jú, vegna þess að hann er kærleikur. Þú er sköpun hans og hann elskar þig. Guð er ríkur að elsku og meðaumkun. Við þurfum öll á ást að halda. Við þurfum á Sannri ást að halda.

Fyrir rúmu ári síðan dreymdi mig draum og hann var þannig:

Mér fannst ég standa og horfa á tvo einstaklinga sem stóðu á sviði. Ég virti þessa einstaklinga fyrir mér og þar sem ég horfi á þá, þá átta ég mig á að Guð er við hliðina á mér og hann spyr mig: ,,Hvað heldur þú að þú sjáir mörg prósent af þessum einstaklingum sem þarna standa“?   ... ,,Ég sé þá 100% sagði Guð ... En hvað heldur þú að þú sjáir mörg prósent?“ .... Á meðan ég hugsaði mig um sagði Guð ....,,Ég þekki þessa einstaklinga fullkomlega...að utan sem innan og ég veit hvað þeir hafa gengið í gegn um, ég veit hvað þeir eru að fást við og ég veit hvað er framundan“ .... og þá vaknaði ég.

Ég hef svo mikið hugsað um þennan draum og áttað mig á að það er svo lítið sem ég sé og veit.


Nú er senn að ljúka árinu 2020  20/20
Ef ég fer í sjónmælingu og fæ niðurstöðuna 20/20 .... þá þýðir það að ég hafi eðlilega sjón. Ég hef ekki alveg fulla sjón, ég þarf gleraugu við lestur, en er ég vel læs á umhverfi mitt?

Á árinu 2020 hefur margt komið í ljós sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi ársins. Það hefur orðið ákveðin opinberun og þetta ár hefur verið mjög erfitt fyrir marga.

Ég velti fyrir mér ef ég gæti séð fólk 100% þá myndi ég kannski í einhverjum tilvikum haga mér öðruvísi gagnvart fólki. Ég yrði kannski tillitssamari, nærgætnari, skilningsríkari, og kannski yrði ég kærleiksríkari. Ég hugsa einnig um, hvað það er lítið brot sem ég sé þegar ég horfi á fólkið í kring um mig. Þegar þið horfið á mig, hvað sjáið þið mörg prósent af mér? Sennilega aðeins lítið brot.

,, Aðgátskal höfð í nærveru sálar“
orti Einar Ben .....

Það skiptir svo miklu máli hvernig við komum fram hvert við annað. Að við sýnum kærleika hvar sem er og hvenær sem er.

Ég velti því líka fyrir mér, þarf ég endilega að sjá fólk 100% til að bera virðingu og koma fram við fólk á viðeigandi hátt. Get ég ekki bara komið fallega fram, alltaf, án þess að vita hvernig fólki líður eða óháð því hvernig fólk hagar sér gagnvart mér? Get ég ekki alltaf gert mitt besta til að sýna öðrum kærleika án þess að gera kröfur um sérstakar upplýsingar um líðan viðkomandi? Get ég sýnt fólki skilyrðislausan kærleika? Elskað fólk til lífs, óháð stöðu, stétt, kyni, trú, útliti eða líðan.

Hvernig heimur væri það ef hver og einn væri alltaf tilbúinn til að láta náunga sinn hafa forgang? Að hver og einn væri alltaf tilbúinn til að setja náungann í fyrsta sæti. Hvernig heimur væri það ef við værum öll, hvert og eitt okkar, tilbúin að hugsa með skilyrðislausum kærleika um þá sem í kring um okkur eru?


Guð er kærleikur.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

                                         

Í Opinberunarbókinni, þriðja kafla eru orð Jesú Krists – Hann segir:

,,Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér".


Hversu dásamlegt er að fá að vera í nærveru Guðs. Guðs sem elskar með kærleika sem breiðir yfir allt. Já, hann stendur við dyrnar og vill fá að neyta kvöldverðar með þér.
Það var ekki pláss fyrir Jesú í gistihúsinu á sínum tíma þegar María og Jósef báðu um athvarf.

Á Jesús athvarf hjá þér ?

Ert þú til í að ljúka upp dyrum hjarta þíns og leyfa Jesú að neyta kvöldverðar með þér við jólaborðið á aðfangadagskvöld?

Hefur þú opnað hjarta þitt fyrir frelsaranum Jesú Kristi og vilt hafa hann með í hverju því sem sem þú tekst á við í þínu lífi?

 

Hvatning mín til okkar er sú, að við elskum fólk með kærleika Guðs. Jesús elskar þig.  

Ég bið að Guð gefi þér, fjölskyldu þinni  og landsmönnum öllum gleði- og friðar jól, í Jesú nafni. Amen.

Kær jólakveðja,
Jóhanna Sólrún Norðfjörð

https://youtu.be/moac9i_iETo

Gleðileg jól 2020
Jóhannesarguðspjall 16:24

Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

1. Jóhannesarbréf 3:21-22

Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt.

Matteusarguðspjall 21:22

,,Ef þið trúið munuð þið öðlast allt sem þið biðjið.“

Orðskviðirnir 16:3

Fel Drottni verk þín og þá bera áform þín árangur.

Jeremía 33:3

Hrópaðu til mín! Ég mun bænheyra þig og ég mun kunngjöra þér mikla hluti og leyndardómsfulla sem þú hefur ekki áður þekkt. 

Jóhannesarguðspjall 15:7

Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það.

Kólusubréfið 1:9-12

Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum með allri speki og skilningi svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði.

Hebreabréfið 10:22-23

Göngum því fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. Höldum fast við játningu vonar okkar án þess að hvika því að trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.

Matteusarguðspjall1 8:19-20

Enn segi ég yður: Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar semtveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“

Lúkasarguðspjall 1:37

,,......en Guði er enginn hlutur um megn.“

Jóhannesarguðspjall 14:13-14

Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni það mun ég gera svo að faðirinn vegsamist í syninum. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni mun ég geraþað.

Jakobsbréfið 1:5-6

Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast. En hann biðji í trú án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu er rís og hrekst fyrirvindi. 

Sálmur 84-12

Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn og synjar þeim engra gæða sem ganga í grandvarleik.

Matteus 25:40

Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Matteus 19:14

En Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi þvíað slíkra er himnaríki.“

Lúkas 11:9-10

Og ég segi yður: ,,Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.

Opnunartími Skrifstofu

Þriðjudaga til föstudaga
kl. 10:00-12:00

Viðtalstímar

Á opnunartíma skrifstofu og
utan opnunartíma eftir samkomulagi

Félagsmiðlar

Facebook
Instagram

Gjafir & tíund

Kt. 490780-0769
Gjafir: 0162-26-52081
Tíund: 0162-26-56052